vetrarskatamotlogoÞað var handagangur í öskjunni við Skátamiðstöðina í Hraunbæ í kvöld þegar Reykjavíkurskátar flykktust að með sitt hafurtask. Nokkrir rútubílar höfðu komið sér vel fyrir og voru reiðubúnir að innbyrða vel á annað hundrað skáta úr Reykjavík og þeirra föggur og flytja góssið austur á Úlfljótsvatn þar sem Vetrarmót Reykjavíkurskáta fer fram um helgina.

„Þetta er búið að að vera ævintýri líkast síðustu vikurnar og nú er komið að því að gera gott mót“, segir Jón Andri Helgason, verkefnastjóri Skátasambands Reykjavíkur. „Þetta byrjaði sem lítil hugmynd á sameiginlegum fundi skátafélaganna í Reykjavík fyrir stuttu síðan þegar við vorum að ræða saman um hvað skátafélögin í Reykjavík gætu gert til að efla sameiginlegt starf. Þá kom upp þessi klikkaða hugmynd um að halda vetrarskátamót og bjóða skátum frá 10 ára aldri (Fálkaskátum) að vera með. Okkur fannst þetta nægjanlega biluð hugmynd til að tékka betur á þessu“, segir Jón Andri.

Jón Andri brosir breitt enda með frábæra skátaforingja sér við hlið.

Ekkert okkar óraði fyrir því að við stæðum hér í kvöld með sneisafullt planið af rútum, liðlega 200 þátttakendur eru mættir hér við Skátamiðstöðina ásamt fjölskyldum sínum og ekki má gleyma 30-40 manna hópi sjálfboðaliða úr röðum eldri skáta sem eru komnir til að halda utan um pakkann og sá hópur hefur einnig lagt fram mikla vinnu við undirbúninginn“ segir Jón Andri og er að vonum kátur með upphaf mótsins.

Ungir viðburðastjórnendur

Haukur Haraldsson, Landnemi og stjórnarmaður í stjórn Skátasambands Reykjavíkur tók í sama streng: „Það er meðbyr með skátastarfi í borginni eins og reyndar um allt land. Við búum vel að frábæru ungu fólki sem leiðir starfið og viðburði af þessu tagi. Það er auðvitað dýrmætt fyrir okkur eldra liðið að fá að fljóta með, svona til að þykjast vera stjórna þessu en sannleikurinn er sá að við setjum bara sjálfstýringuna á og allt rennur þetta í gegn fyrir tilstilli ungra skátaforingja sem rúlla þessu upp“.

„Haukurinn“ (Haukur Haraldsson) pantar sér pizzu áður en lagt er af stað.

Einhverjir í skálum og restin úti!

Dagskrá helgarinnar er fjölbreytt og ævintýraleg. Aðaláherslan verður á vetrarútvist enda verðurspáin góð og Úlfljótsvatn, perla skátastarfs á Íslandi, skartar sínu fegursta.

„Við höfum frábæra aðstöðu á Úlfljótsvatni“ segir Jón Andri. „Eina sem kreppir að er að mótið er svo fjölmennt að við komum ekki öllu liðinu í koju“ bætir hann við með brosi á vör. En hvað verður þá um þá mótsgesti sem ekki fá rúmstæði? „Það verður ekkert mál“, segir Jón. „Yngstu þátttakendurnir, Fálkaskátar (10-12 ára) fá allir rúmstæði í góðum herbergjum, dróttskátarnir (13-15 ára) og eldra lið sofa ýmist í flatsæng í gamla KSÚ-skálanum, tjalda eða koma sér fyrir í snjóhúsum – það er nægur snjór á svæðinu og lítið mál að byggja úr honum hlýleg húsakynni ef rétt er staðið að málum“ segir Jón Andri.

Skátamál.is mun fylgjast vel með mótinu um helgina og flytja lesendum fréttir og myndir af þessum skemmtilega viðburði.

/gp

 :: Upplýsingar um dagskrá
:: Myndir frá föstudegi
:: Myndir frá laugardegi