Klifjuð tölvum, netsnúrum, svefnpokum og matarbirgðum mættu nítján dróttskátar og foringjar í skátaheimili Árbúa um helgina. Tilefnið var LAN- og spilahelgi sem dróttskátasveitin Pegasus stóð fyrir.
Heiður hlýtur núna að vera í guðatölu hjá dróttskátum
Heiður Dögg Sigmarsdóttir, sveitarforingi Ds.Pegasus segir Árbúa duglega við að gista í skátaheimilinu og eru slíkir viðburðir ávallt vinsælir.
Því besta pakkað á eina helgi
„Þegar við skipulögðum veturinn núna í haust að þá voru þrír hlutir sem krakkana langaði mest að gera; gista í skátaheimilinu, lana og spila Magic the Gathering spilið. Við foringjarnir ákváðum því að það væri lítið mál að skella öllum þessum hlutum saman og gera góða helgi úr þessu,“ segir Heiður.
Allskonar tölvuleikir birtust á skjám krakkana, allt frá penguin club og the sims yfir í hinn gamla góða Duck Hunt sem spilaður var á aldraða Nintendo vél.
Víruð
Netskátar
Alveg geðveikt fjör
„Við spiluðum MineCraft þangað til klukkan var orðin fjögur um nótt. Það var alveg geðveikt fjör og ég myndi vilja gera það aftur,“ sagði Magnús Atli, 14 ára dróttskáti, sáttur með að hafa fengið að vaka svona lengi.
Fyrri nóttin var töluvert fjörug þar sem fyrstu skátarnir fóru að sofa rétt eftir miðnætti en þeir allra hörðustu slökktu ekki á tölvunum fyrr en um sólarupprás. Seinni nóttin var svipuð en þó örlítið rólegri. Þrátt fyrir að tölvuleikirnir væru aðal dagskrárefni helgarinnar var ýmislegt annað brallað.
„Við horfðum á fullt af anime og spjölluðum saman um tölvuleikina og allskonar annað,“ sagði Dagbjört, 13 ára.
Hjálpsamir skátar í netheimum
Aðspurð hví þau ákváðu að halda tölvulan frekar en að fara í hefðbundna skátaútilegu bentu krakkarnir á að það væri alveg jafn gaman að gista í skátaheimilinu þar sem þau geta verið öll saman að leika sér.
„Það er svo skemmtilegt að lana því þá eru allir að spila saman í einu og hjálpast að í tölvuleikjum og gera hluti sem er ekki hægt að gera þegar maður spilar einn,“ sagði Hlynur, 13 ára.
Heiður bendir einnig á að skáti er ekki bara hjálpsamur úti í samfélaginu og náttúrunni, skáti geti líka verið hjálpsamur í netheimum.
Unplögg´ð
Þegar foringjar eru inntir eftir stemningu helgarinnar var svarið auðvelt. „Þetta var eins og góður hamborgari, sveitt og skemmtilegt,“ sagði Svanur Ingi, aðstoðarforingi Ds.Pegasus.
Fleiri myndir er svo að finna á Facebook.com/skatarnir.
Frétt af www.skatamal.is