Sýnishorn af dæmigerðri heimasíðu skátafélags.

Samhliða vinnu við gerð kynningarvefsins www.skatarnir.is sem opnaði 2013, var unnin vefsíða fyrir skátafélögin og býðst öllum skátafélögum að taka þessa vefsíðu í notkun sér að kostnaðarlausu. Vefsíðan er unnin í vefumsjónarkerfinu WordPress en það er það kerfi sem BÍS hefur valið sér og nýtir bæði í www.skatarnir.iswww.skatamal.is og fleiri verkefni. Vefsíðan er unnin í svokallaðri „responsive“ tækni sem gerir það að verkum að hún er einnig aðgengileg í snjallsímum og á spjaldtölvum.

Skátafélögunum býðst að fá umrædda vefsíðu með öllum gögnum á ZIP-formi og er sú vinna sem lögð hefur verið í þá vefsíðu, ásamt öllum gögnum, í boði BÍS og hverju félagi að kostnaðarlausu. Þau félög sem hafa aðgang að tækniþekkingu geta því einfaldlega fengið þess gögn í tölvupósti og séð sjálf um að setja þau upp á því léni sem þau kjósa og aðlaga síðurnar að eigin þörfum.

Þarf félagið aðstoð?

Ef félagið þarf aðstoð við að setja vefinn upp er hægt að hafa samband við Guðmund Pálsson verkefnastjóra sem veitir allar nánari upplýsingar. Umfang aðstoðar við uppsetningu og frágang getur verið mismikið og fer algjörlega eftir því hvað hvert félag vill og greiðir félagið fyrir þá vinnu sem óskað er eftir. Til að glöggva sig á hugsanlegum kostnaði er best að félagið skoði hvaða þjónustuþætti óskað er eftir, hafi samband við Guðmund í kjölfarið sem gerir kostnaðaráætlun.

Hér að neðan eru nokkur dæmi um verkþætti sem veitt er aðstoð við:

  • Uppsetning á MySQL gagnagrunni og WordPress vefumsjónarkerfinu á léni (veffangi) félagsins.
  • Uppsetning á vefsíðu skátafélaga samkvæmt því dæmi sem BÍS hefur látið vinna (Skoða sýnishorn).
  • Innsetning á ljósmyndum sem félagið óskar eftir að hafa.
  • Innsetning á merki félagsins í haus og fót vefsíðunnar.
  • Skilgreining og stofnun undirsíðna eftir óskum félagsins.
  • Uppsetning og stillingar á viðburðardagatali eins og því sem notað er á Skátamál.is (Sjá sýnishorn).
  • Tenging við Facebook-síðu félagsins og/eða aðra samfélagsmiðla sem félagið notar.
  • Útlitlseg aðlögun eftir óskum félagsins, hönnun á haus og önnur grafísk vinnsla.
  • Yfirfærsla á efni (texti, myndir, tenglar) af „gömlu vefsíðunni“ yfir á þá nýju.

Þetta er alls ekki tæmandi listi heldur aðeins vísbending um þá þjónustuþætti sem í boði eru fyrir skátafélögin.

Betra að líta vel út!

BÍS hefur lagt sig fram um að taka sín vefmál í gegn á síðustu misserum með það að markmiði að hafa smekklega ásýnd á vefnum og að veita góða upplýsingaþjónustu til þeirra sem vilja kynna sér skátastarf (www.skatarnir.is) og/eða fylgjast með því sem er efst á baugi hverju sinni (www.skatamal.is). Mörg skátafélög hafa einnig staðið sig prýðilega á þessu sviði en auðvitað er takmarkmið að við lítum öll vel út á vefnum og það er markmið þessa verkefnis.

Á næstunni verður lagt talsvert fjármagn og vinna í að kynna innritun og skátastarfið í vetur að hálfu BÍS og því er mikilvægt að vefir skátafélaganna séu klárir í slaginn!

Aðstoð og nánari upplýsingar

Allar nánari upplýsingar veitir Guðmundur Pálsson verkefnastjóri – 696 4063 – gudmundur@skatar.is.

:: Dæmi um heimasíðu skátafélags. (Þetta útlit, síðusnið, grafík og gögn er skátafélögunum að kostnaðarlausu).