Ævintýraleg sumarupplifun!
Sumarið er uppáhaldstími margra. Þá hringja skólabjöllurnar út í síðasta skiptið þetta starfsárið og við tekur spennandi tímabil þar sem sólin sest ekki og ævintýrin bíða þín á hverju horni. Sumarið er nauðsynlegur tími í þroskaferli hvers barns, en þá fær það tækifæri til að nema nýjar lendur í hópi jafnaldra sinna, skoða heiminn með forvitni að vopni og upplifa það sem náttúran hefur upp á að bjóða.
Útilífsnámskeið skátanna nýta allt það sem sumarið hefur í för með sér og skiptir þá engu máli hvernig viðrar; það er alltaf eitthvað við að vera! Skátarnir nýta aldarlanga reynslu sína í að starfa með börnum og ungmennum til þess að gefa krökkunum á útilífsnámskeiðunum brot af því besta. Dagskrá er breytileg eftir staðsetningu en hver starfstöð starfar sjálfstætt, er með sinn eigin skólastjóra og foringjahóp. Aðaldagskráratriðin eru þó yfirleitt þau sömu; leikir, útivist og áskoranir. Margar starfstöðvar bjóða upp á námskeið sem enda á einnar-nætur útilegu, þar sem sumir þátttakendur gista í fyrsta skipti annarsstaðar en heima hjá foreldrum sínum, sem er í senn stundum pínulítið ógnvekjandi, en yfirleitt mikill sigur og ótrúleg uppspretta góðra æskuminninga.
Skráning er hafin
Einstaklega skemmtileg Útilífsnámskeið fyrir krakka á aldrinum 8-12 ára. Kíktu á vefsíðuna okkar um Útilífsskóla til að skoða nánar um starfssvæði og frekar upplýsingar
utilifsskoli.isTöfraheimur umhverfissins
„Fyrir þann sem hefur augu sem sjá og eyru sem heyra er skógurinn í senn tilraunastofa, félagsheimili og musteri“.Robert Baden-Powell, stofnandi skátahreyfingarinnar
Í hundrað ár hafa íslenskir skátar verið leiðandi í að kynna börn og ungmenni fyrir undraveröld náttúrunnar. Umhverfið og náttúran hafa frá upphafi verið kjörlendi skátastarfs og strax á unga aldri er krökkum innrætt virðing fyrir náttúrunni og lífríki hennar, þar sem þau læra að umgangast náttúruna á þann hátt að það skaði hvorki þau sjálf né náttúruna.
Fjölbreytileg íslensk náttúra er fyrirtaks vettvangur til þess að takast á við áskoranir, læra að meta fegurðina sem falin er í fjöllum og hraunflákum, þroska sjálfa(n) sig og læra að bjarga sér. Reyndir skátar klífa fjöll, síga niður kletta, þvera ár og sigla á fljótum. Á útilífsnámskeiðum skátanna fá krakkar að stíga sín fyrstu skref í útivist og prófa sig áfram í spennandi verkefnum. Það er mikil áskorun fyrir hvern sem er að síga í fyrsta skipti niður klettavegg, en með stuðningi foringjans og hvatningu jafningjanna er hvað sem er hægt og eftir að hafa látið vaða breytist fiðringurinn og óttinn í stolt yfir því að hafa þorað (og vitaskuld löngun til þess að prófa aftur!).
Faglegir foringjar
„Skátaforingi kennir krökkunum leikinn með því að leika sér með þeim“.Robert Baden-Powell, stofnandi skátahreyfingarinnar