Skólabúðirnar sem Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni annast fyrir eldri deildir grunnskóla voru til umfjöllunar í Morgunblaðinu á föstudag.
Guðmundur Finnbogason er kennari að mennt.
Rætt er við Guðmund Finnbogason, framkvæmdastjóra útilífsmiðstöðvarinnar sem segir útivistina notaða sem grunn að starfinu. „Í skólabúðunum vinnum við til dæmis með grunnþætti menntunar eins og þeir eru skilgreindir í aðalnámskrá grunnskóla, en notum útivistina og athafnanám í staðinn fyrir bækur og tússtöflur. Það er í raun það sem hin svokallaða skátaaðferð gengur út á. Þannig getum við bæði komið með nýja nálgun á mörg viðfangsefni og tekið fyrir önnur sem erfiðara væri að ná utan um í hefðbundnum skólastofum,“ segir Guðmundur í viðtalinu.
Fá náttúruna beint í æð
Allar bekkjadeildir sem koma í skólabúðirnar byrja á því að fara í fjallgöngu og má því segja að þær fái náttúruna beint í æð. Eftir það er vinsælt að fara í hópefli, rathlaup, frisbígolf, klifur eða læra um skyndihjálp eða útieldun. Einnig gefst tími til að vinna verkefni að vali kennara, og fara þau oft eftir því hvar bekkurinn er staddur í náttúrugreinum.
Guðmundur upplýsir að í vetur bjóðist nemendum skólabúðanna að spreyta sig á bogfimi í fyrsta sinn. „Það hefur orðið mikil aukning í áhuga á bogfimi undanfarna mánuði og krökkum finnst mjög spennandi að spreyta sig á henni. Það krefst mikils aga og sjálfsstjórnar að skjóta vel af boga og hingað hafa komið nokkrir sem gefa Katniss Everdeen lítið eftir,“ hefur Morgunblaðið eftir Guðmundi þar sem hann og vísar til aðalpersónunnar í Hungurleikunum.
Guðmundur leggur áherlsu á að þó skólabúðirnar séu skemmtilegar og mikið ævintýri séu þær langt frá því að vera bara afþreying. Þær eru virkur þáttur í menntun nemendanna, á óhefðbundinn hátt, og stuðli að bættri sjálfsmynd og færni. „Við viljum að þátttakendur fari frá okkur með bros á vör, stoltir af því að hafa sigrast á nýjum og krefjandi verkefnum. Hér eru engir varamannabekkir, allir eru virkir þátttakendur,“ segir Guðmundur, sem sjálfur er kennari.
Vilja gjarnan fá nemendur í lengri tíma
Í skólabúðunum á Úlfljótsvatni hefur verið algengst að nemendur dvelji í tvo til þrjá daga, en Guðmundur segir að hægt sé að bjóða ríkulegri dagskrá og kafa dýpra í viðfangsefnin í fimm daga skólabúðum. Hann bendir á góða staðsetningu Úlfljótsvatns nálægt höfuðborgarsvæðinu og öðrum stórum byggðakjörnum. Fyrir skóla á þessu svæði sé Úlfljótsvatn nánast í bakgarðinum enda komi hópar gjarnan í dagsferðir sem eru hluti af útivistar- og náttúrufræðitímum.
„Hér er aðstaðan fyrir hendi, í öruggu umhverfi og mikil þekking og reynsla á staðnum til að aðstoða slíka hópa,“ segir Guðmundur að lokum.
Fréttin í Morgunblaðinu á föstudag
Fréttin er tekin af fréttasíðu skátanna www.skatamal.is