Skátastarf – Reykjavíkurskátar.
Skátafélags Reykjavíkur, fyrsta skátafélag á Íslandi var stofnað í „Fjósinu“ bak við Menntaskólann í Reykjavík 2. nóvember 1912. Hin alþjóðlega skátahreyfing rekur hinsvegar sögu sína til ársins 1907 þegar haldin var víðfræg útilega Baden Powells á Brownseaeyju við suðurströnd Englands þar sem hann sannreyndi hugmyndir sína um hina nýju æskulýðshreyfingu. Það tók því hugmyndina aðeins örfá ár að berast yfir Ermarsundið, upp til Danmerkur, hingað til Íslands og að festa rætur hér. Segja má að skátahreyfingin og hugsjónir hennar sem bárust með örskotshraða um allan heiminn, hafi slegið í gegn frá upphafi. Bræðralagshugsjón skáta, friðarhugsun, athafnastarf, útivist og virðing fyrir náttúru og samfélagi fundu strax hljómgrunn hjá æskufólki.
Skátastarfið í Reykjavík tók ýmsum breytingum í þróun upphafsáranna. Skátafélagið Væringjar (félag KFUM skáta) var stofnað 1913, Skátafélagið Ernir 1924 og Skátafélagið Völsungar 1938. Þessi félög sameinast síðan í nýju Skátafélagi Reykjavíkur, SFR árið 1938 sem var þó einungis fyrir drengjaskáta. Kvenskátafélag Reykjavíkur, KSFR var stofnað 1922 og starfaði óslitið til ársins 1969. Það ár var gerð skipulagsbreyting á skátastarfnu í borginni til að mæta auknum félagafjölda og stækkun borgarlandsins þegar bæði félögin, SFR og KSFR voru lögð niður og sérstök skátafélög stofnuð í hverfum borgarinnar. Öll hin nýju skátafélög sameinuðust þá í Skátasambandi Reykjavíkur sem var hinsvegar stofnað 1963.
Skátafélögin í Reykjavík eru: Árbúar í Árbæjarhverfi, Garðbúar í Smáíbúða- og Bústaðahverfum, Hafernir í efra Breiðholti, Hamar í Grafarvogi, Landemar í gamla Austurbænum, Segull í neðra Breiðholti og Seljahverfi, Skjöldungar í Laugarnes- og Vogahverfum, Ægisbúar í Vesturbæ.
Skátafélögin og Skátasambandið eru aðilar að landssamtökum skáta, Bandalagi íslenskra skáta.