Nú gefum við skátastarfi byr undir báða vængi!

Heimsfaraldurinn hefur haft áhrif á skátastarf í Reykjavík, eins og flest annað í okkar daglega lífi og samfélagi. Þó hafa sniðugir foringjar boðið upp á alls konar dagskrá þrátt fyrir samkomutakmarkanir og nándarmörk, svo reykvískir skátar hafa getað haldið áfram skátastarfi sínu með útivist og rafrænum leiðum. Við hjá SSR erum svo ótrúlega stolt og þakklát fyrir alla sjálfboðaliðana og skátana sem hafa búið til dagskrá, tekið þátt í dagskrá og bara almennt reynt að lífga upp á lífið í þessu ástandi. Þess vegna viljum við gefa til baka og bjóðum því upp á styrktarsjóð, með einni úthlutun, sem er er sérstaklega gerður til að blása byr í seglin, nú þegar það sér vonandi loks fyrir endann á þessu, og þakka sjálfboðaliðum fyrir að standa vaktina á erfiðum tímum.

Ef þú ert skáti eða skátahópur í Reykjavík, á hvaða aldri sem er, getur þú sótt um í sjóðinn góða. Við erum að leita að verkefnum sem þurfa fjármagn – svolítinn meðbyr – til að verða að veruleika, svo ekki hika við að koma með stórar, góðar hugmyndir.

Viðmið styrkjaúthlutunarinnar:

Hugmyndin þín þarf að uppfylla a.m.k eitt af eftirtöldum atriðum:

  • Fjárfestingar í búnaði eða aðstöðu sem gagnast skátum í Reykjavík, þvert á félög
  • Stuðningur, glaðningur, búnaður eða dagskrá fyrir foringja og fullorðna sjálfboðaliða í Reykjavík, sem þakklætisvottur fyrir góð störf á erfiðum tímum
  • Stærri og fjárfrekari verkefni sem nýtast öllum skátum í Reykjavík

Vonandi nýtist þessi meðbyr til að blása skátum og skátaforingjum byr í brjóst, til þess að auðvelda skátastarfi að ná fullum kröftum eftir lægðina. 

Ef þú ert ekki viss um að þín hugmynd eigi erindi inn í sjóðinn eða hefur einhverjar spurningar geturðu haft samband við ssr@ssr.is eða í síma 577-4500

Frestur til þess að setja hugmynd í pottinn er 1. mars 2021.


Smáa letrið

Allir virkir skátar með lögheimili í Reykjavík og skátar sem starfa með skátafélögum í Reykjavík mega sækja um í pottinn. Hópum, svo sem einstaka skátaflokkum, skátasveitum, skátafélögum, starfshópum eða óformlegum hópum skáta, er einnig heimilt að sækja um í pottinn, en valið verður úr umsóknum með tilliti til þess hversu stórum hópi hugmyndin nýtist. Stjórn SSR áskilur sér rétt til þess að velja hvort heldur sem er eina stóra hugmynd eða margar minni og áskilur sér einnig rétt til þess að hafna öllum hugmyndum. Potturinn er fjármagnaður að hluta til með styrkjum sem SSR hefur borist vegna faraldursins og að hluta til með eigin fjármagni SSR.