Skátarnir í Reykjavík hafa sett af stað Vetraráskorun Reykjavíkurskáta í staðinn fyrir Vetrarmót Reykjavíkurskáta sem var ekki hægt að halda í janúar vegna samkomutakmarkanna. Búið er að gera nýtt ofið merki í anda Vetrarmóts sem skátar og almenningur geta unnið sér inn með því að leysa að minnsta kosti fimm af þessum sex verkefnum sem eru í boði.
Verkefnin má leysa sem einstaklingur, skátaflokkur eða skátasveit og þarf að fylgja mynd af viðkomandi leysa hvert verkefni fyrir sig.
Til að standast vetraráskorunina þarft þú að vinna a.m.k. fimm þessara verkefna:
- Gista eina nótt í skála/tjaldi/snjóhúsi
- Elda eina máltíð utandyra
- Ganga í tvær klukkustundir
- Skoða helli eða ganga á fjall
- Renna sér á skíðum eða sleða
- Gefa af sér með samfélagsþjónustu (t.d. með ruslatýnslu, fjáröflun fyrir gott málefni eða annað sem nýtist samfélaginu)
Safna þarf myndum af a.m.k fimm verkefnum og senda á tölvupóstinn ssr@ssr.is eða setja póst á Instagram/facebook og merkja myndirnar #Vetraráskorun og @skatarnir ásamt því að tilgreina hvaða einstaklingar tóku þátt í að leysa verkefnin.
Hægt er að skila inn verkefnum til 31.mars 2021.