Skátastarfið byggir á þeim gildum sem felast í skátalögum og skátaheiti. Skátar fara í útilegur og ferðalög, þeir syngja og sprella, spila tónlist og klífa fjöll, leika leikrit og sigla á kajökum, smíða, mála, klippa, tálga, dansa og byggja snjóhús – viðfangsefnin eru jafn fjölbreytt og hugurinn girnist.
Það eru nefnilega þátttakendurnir sjálfir, í sínum litlu hópum, sem ákveða hvað þeir vilja fást við.
Viðfangsefnin geta auðvitað ráðist af tíðaranda, aðstæðum og umhverfi, en fyrst og fremst ráðast þau af því sem vinahópurinn hefur áhuga á að gera þegar hann velur sér verkefni að kljást við.
Markmið skátastarfs er að þroska börn og ungt fólk til að verða sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu.
Með skátastarfinu viljum við stuðla að því að skátar:
- Sýni sjálfum sér, öðrum og umhverfinu virðingu.
- Taki tillit til skoðana og tilfinninga annarra.
- Séu skapandi og sjálfstæðir í hugsun, orði og verki.
- Geri ávallt sitt besta og hræðist ekki að gera mistök.
- Lifi heilbrigðu lífi og séu traustir félagar og vinir.
Einnig viljum við að skátastarfið stuðli að því að skátar fylgi alltaf trú sinni og sannfæringu, en geti einnig tekið gagnrýni. Berjist gegn ranglæti og órétti, rétti öðrum hjálparhönd og leggi sitt af mörkum til betra samfélags.
Þeir séu viljugir til að axla ábyrgð og ljúki þeim verkefnum sem þeir taka að sér, lifi lífinu af gleði og ánægju, hafi hugrekki til þess að láta drauma sína rætast og nýta þau tækifæri sem skapast.
Það er líka mikilvægt að skátar skilji og njóti eigin menningar og annarra og stuðli að friði, jafnrétti og bræðralagi manna á meðal.
Skátastarf – hollara en hafragrautur!“