Skátastarf
Hvað gera skátarnir?
Skátastarfið byggir á þeim gildum sem felast í skátalögum og skátaheiti. Skátar fara í útilegur og ferðalög, þeir syngja og sprella, spila tónlist og klífa fjöll, leika leikrit og sigla á kajökum, smíða, mála, klippa, tálga, dansa og byggja snjóhús – viðfangsefnin eru jafn fjölbreytt og hugurinn girnist.
Það eru nefnilega þátttakendurnir sjálfir, í sínum litlu hópum, sem ákveða hvað þeir vilja fást við.
Viðfangsefnin geta auðvitað ráðist af tíðaranda, aðstæðum og umhverfi, en fyrst og fremst ráðast þau af því sem vinahópurinn hefur áhuga á að gera þegar hann velur sér verkefni að kljást við.
Markmið skátastarfs er að þroska börn og ungt fólk til að verða sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu.
Með skátastarfinu viljum við stuðla að því að skátar:
- Sýni sjálfum sér, öðrum og umhverfinu virðingu.
- Taki tillit til skoðana og tilfinninga annarra.
- Séu skapandi og sjálfstæðir í hugsun, orði og verki.
- Geri ávallt sitt besta og hræðist ekki að gera mistök.
- Lifi heilbrigðu lífi og séu traustir félagar og vinir.
Einnig viljum við að skátastarfið stuðli að því að skátar fylgi alltaf trú sinni og sannfæringu, en geti einnig tekið gagnrýni. Berjist gegn ranglæti og órétti, rétti öðrum hjálparhönd og leggi sitt af mörkum til betra samfélags.
Þeir séu viljugir til að axla ábyrgð og ljúki þeim verkefnum sem þeir taka að sér, lifi lífinu af gleði og ánægju, hafi hugrekki til þess að láta drauma sína rætast og nýta þau tækifæri sem skapast.
Það er líka mikilvægt að skátar skilji og njóti eigin menningar og annarra og stuðli að friði, jafnrétti og bræðralagi manna á meðal.
Markmið skátastarfsins
Meginmarkmið skátahreyfingarinnar er að stuðla að uppeldi og þroska barna, unglinga og ungs fólks af báðum kynjum á þann veg að þeir einstaklingar sem „skátauppeldis” njóta verði sjálfstæðir og sjálfum sér nógir, en jafnframt virkir og ábyrgir samfélagsþegnar. Samfélagsþegnar sem taka þátt í að betrumbæta þann heim sem við búum í, náttúrulegt og menningarlegt umhverfi og samfélag manna, bæði það sem næst okkur er og á alþjóðavísu.
Þannig hefur skátahreyfingin skapað sér uppeldishlutverk sem hún hefur eftir mætti reynt að rækja í yfir hundrað ár um allan heim. Skátahreyfingin starfar eftir sömu gildum í nánast öllum löndum jarðarkringlunnar og er fjölmennasta æskulýðshreyfing í heiminum. Þessu uppeldishlutverki sinnir skátahreyfingin með því að beita skátaaðferðinni, en hún gerir skátann sjálfan að lykilpersónu á vegferð sinni til að verða sú sjálfstæða og sjálfbjarga manneskja sem er fær um að veita öðrum stuðning en jafnframt að vera hluti af heild.
Mikilvægur hluti skátaaðferðarinnar er tilboð til hvers skáta fyrir sig um tiltekin persónuleg og félagsleg gildi skátalaganna sem verða nánast að lífsreglum sem skátar um allan heim aðhyllast.
Skátaaðferðin
Skátaaðferðin er ómissandi hluti af uppeldiskerfi skátahreyfingarinnar.
Skátaaðferðina má skilgreina sem framfarakerfi er miðar að sjálfsmenntun. Hún er viðbót við og vinnur með fjölskyldunni, skólanum og margþættu frístundastarfi unglinga. Skátaaðferðin byggir á samhæfingu nokkurra þátta, lykilþættir hennar eru:
- Framfarakerfi markmiða og verkefna.
- Stuðningur fullorðinna skátaforingja.
- Reynslunám.
- Hollusta við skátalögin.
- Táknræn umgjörð.
- Flokkakerfi.
- Hjálpsemi sem leið til þroska.
- Útilíf og náttúruvernd.
- Leikir sem námsaðferð.
Þó að hægt sé að nefna alla þessa afmörkuðu þætti er nauðsynlegt að skilja hvernig þeir tengjast og vinna saman til að átta sig á hvernig skátaaðferðin virkar í raun. Aðferðin er eins árangursrík og raun ber vitni vegna þess að þessir þættir eru samræmdir og í jafnvægi. Ef það vantar einhver hljóðfæri í sinfóníuhljómsveit, hljóðfærin eru vanstillt eða sum of hávær, þá hljómar tónverkið aldrei rétt.
Oft eru afmarkaðir þættir skátaaðferðarinnar skoðaðir einir og sér og ekki í samhengi hver við annan, það kemur í veg fyrir að við sjáum heildarmyndina. Ef skátaaðferðinni er beitt á svo takmarkaðan hátt má gera ráð fyrir lökum árangri. Líkt og öll önnur kerfi er skátaaðferðin margþætt, en með því að skilja tengingarnar á milli ólíkra þátta hennar getum við áttað okkur á hvernig hún virkar í raun og beitt henni á árangursríkan hátt í störfum okkar.
Langar þig að vita meira um skátaaðferðina?
Á þessari síðu hefur aðeins verið stiklað á stóru hvað skátaaðferðina varðar.
Ef þú hefur áhuga á að kynna þér málið nánar er tilvalið að þú nælir þér í eintak af nýju foringjabókunum.
Foringjabækur
Grunngildi skátahreyfingarinnar eiga uppruna sinn í hugmyndum og skrifum Baden-Powell frá upphafi tuttugustu aldar og í samþykktum alþjóðasamtaka skáta eftir að skátahreyfingin var formlega stofnuð sem alþjóðahreyfing árið 1920.
Grunngildi skátahreyfingarinnar eru af þrennum toga:
1. Samfélagsleg gildi sem tengjast hlutverki skátahreyfingarinnar:
- Skátahreyfingin er alþjóðleg uppeldis- og friðarhreyfing sem stuðlar að menntun ungs fólks með sjálfsnámi og sjálfsuppeldi.
- Skátahreyfingin er opin öllum og óháð stjórnmálasamtökum.
2. Siðferðileg gildi sem finna má í:
- skátaheiti og
- skátalögum.
3. Aðferðafræðileg gildi sem fólgin eru í Skátaaðferðinni:
- Stigvaxandi sjálfsmenntun.
- Kerfi innbyrðis tengdra lykilþátta.
Grunngildi skátahreyfingarinnar mynda sameiginlega grundvöll skátastarfs og skilgreina þannig sérstöðu þess. Ef þau eru ekki grundvöllur starfsins má spyrja hvort um raunverulegt skátastarf sé að ræða.
Samfélagsleg grunngildi skátahreyfingarinnar
Markmið skátahreyfingarinnar
Markmið skátahreyfingarinnar er að leggja sem mest af mörkum við uppeldi ungs fólks, á grundvelli siðferðilegs gildakerfis sem byggist á skátaheitinu og skátalögunum, til þess að skapa betri heim þar sem fólk öðlast lífsfyllingu sem einstaklingar og sinna uppbyggjandi hlutverkum í samfélaginu. Þetta er gert með því að:
- Virkja ungt fólk á þroskaskeiði þeirra með óformlegu uppeldis- og menntakerfi.
- Beita sérstökum aðferðum sem gera hvern einstakling virkasta áhrifavaldinn í eigin uppeldi og þroskaferli til að verða sjálfstæður, virkur og ábyrgur einstaklingur í samfélaginu.
- Hjálpa ungu fólki að byggja upp eigið gildakerfi sem grundað er á siðferðilegum lífsgildum, félagslegu réttlæti og persónulegri staðfestu í anda skátalaga og skátaheitis.
Skátahreyfingin stuðlar að menntun ungs fólks með sjálfsnámi og sjálfsuppeldi
Þegar Baden-Powell sneri aftur til Englands frá Suður-Afríku í upphafi 20. aldarinnar veitti hann eftirtekt „þúsundum drengja og ungra manna sem voru fölir, horaðir, hoknir og brjóstumkennanlegir, keðjureykjandi og jafnvel betlandi“. Hann hafði áhyggjur af þessari hnignun siðferðis hjá ungu fólki og þeirri hættu sem það skapaði fyrir samfélagið. Skátahreyfingin varð þannig til út frá hugsjón hans um að bæta samfélagið, sem hann trúði að gæti aðeins orðið með því að efla einstaklinginn. Baden-Powell leit á „persónuleika“ einstaklinganna sem mesta styrk samfélagsins. Árið 1913 skrifaði hann eftirfarandi um uppeldismarkmið skátastarfs: „Menntun til að efla sjálfstraust, skyldurækni, hugprýði og þolgæði, virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum – í einu orði sagt allt það sem skapar sterkan persónuleika.“
Skátaheyfingin er fyrir ungt fólk, með ungu fólki.
Skátahreyfingin er ekki aðeins hreyfing fyrir ungt fólk sem er stýrt af fullorðnum. Hún er líka hreyfing ungs fólks, studd af fullorðnum. Þar af leiðandi er skátahreyfingin lærdómssamfélag fyrir ungt fólk og fullorðna sem deila eldmóði og reynslu. Þessi grunnregla ætti að vera við lýði í skátastarfi allra skátafélaga. Gefa þarf skátum á öllum aldursstigum tækifæri til að taka þátt í ákvarðanatöku sem hefur áhrif á skátastarfið. Með aldrinum eykst ábyrgð þeirra í ákvarðanatöku og framkvæmd verkefna.
Skátastarf gefur unglingum og ungu fólki tækifæri til að þjálfa hæfnina til að taka eigin ákvarðanir og öðlast meira sjálfstæði. Skátastarf er í raun leiðtogaþjálfun sem leiðir bæði til virkrar þátttöku í samfélaginu og til þess að verða „leiðtogi í eigin lífi“. Uppeldishreyfing sem hefur þann tilgang að skapa ungu fólki tækifæri til að þroskast og verða virkir í samfélagi nær mestum árangri ef ungmennunum er fylgt eftir í gegnum unglings- og ungdómsárin.
Skátahreyfingin er opin öllum
„Skátahreyfingin er opin öllum, án tillits til uppruna, kynþáttar eða trúar.“ Þessi yfirlýsing í grundvallarlögum alþjóðasamtaka skáta er mjög skýr. Samsvarandi yfirlýsingu er að finna í lögum Bandalags íslenskra skáta:
„BÍS virðir sérhverja lífsskoðun sem samræmist skátaheitinu og skátalögunum. Í skátastarfi og við inngöngu nýliða skal virða og engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis, kynhneigðar eða annarra ástæðna.“
Það að skátahreyfingin sé opin öllum merkir ekki að skátastarf sé fyrir alla – heldur að hún sé opin fyrir alla sem vilja fylgja markmiðum hennar, grunngildum og Skátaaðferðinni. Lokaákvörðunin um að taka þátt eða ekki er í höndum hvers og eins. Það er ekki á valdi fullorðinna að ákveða hvort barn eða unglingur sé „ákjósanlegt“ í skátastarfi eða að miða þátttöku við ákveðinn þjóðfélagshóp. Skátahreyfingin er „uppeldishreyfing“ sem hefur þá skyldu að samþykkja alla sem vilja taka þátt í skátastarfi. Skátahreyfingin er ekki hreyfing fyrir útvalda. Hins vegar er ljóst að skátahreyfingin getur aðeins tekið á móti einstaklingum með miklar sérþarfir þegar aðstæður og mannafli er fullnægjandi til að mæta þörfum þeirra, svo sem hentugt húsnæði og hæfir foringjar sem hafa lokið fullnægjandi leiðtogaþjálfun.
Skátahreyfingin er óháð stjórnmálasamtökum
Skátahreyfingin er frjáls og óbundin stjórnmálaflokkum. Þegar einstaklingar koma fram í nafni skátahreyfingarinnar mega þeir ekki tengja sig stjórnmálaflokkum þar sem slíkt væri ógnun við sjálfstæði skátahreyfingarinnar. Það sama gildir um útgáfu eða yfirlýsingar í nafni skátahreyfingarinnar.
Ekkert hamlar skátahreyfingunni frá því að taka afstöðu í tilteknum málefnum.
Þetta merkir þó ekki að skátastarf sé algjörlega aðskilið félags- eða stjórnmálalegum raunveruleika. Sú menntun sem felst í skátastarfi getur ekki átt sér stað í tómarúmi og hreyfingin þarf að geta varið þau gildi sem hún stendur fyrir og skapa kjöraðstæður fyrir það uppeldi sem hún boðar. Þess vegna hamlar ekkert skátahreyfingunni frá því að taka afstöðu í tilteknum málefnum, eins og til dæmis hvað varðar réttindi barna, að því tilskildu að afstaðan sé í samræmi við uppeldismarkmiðin og grunngildin og að umræðan sé ekki hluti af valdabaráttu eða átökum, sem skátahreyfingin tekur ekki þátt í.
Ekkert kemur í veg fyrir að félagar í skátahreyfingunni starfi á sama tíma með stjórnmálaflokki, ef það er gert í eigin nafni en ekki skátahreyfingarinnar.
Siðferðileg grunngildi skátahreyfingarinnar
Siðferðileg gildi skátahreyfingarinnar er að finna í skátaheitinu og skátalögunum. Fyrirmynd þeirra er í samþykktum alþjóðahreyfinga skáta – en orðalag er svolítið mismunandi eftir löndum, menningarheimum og tungumálum.
Skátaheitið
Skátaheitið er loforð sem skátinn gefur sjálfum sér, eins konar persónuleg áskorun um að gera sitt besta. Þegar skátinn vinnur skátaheitið er hann að taka fyrsta meðvitaða skrefið á sjálfsnámsbrautinni til að verða sjálfstæður, virkur og ábyrgur samfélagsþegn. Texti skátaheitisins er stuttur og einfaldur:
Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur til þess að gera skyldu mína við guð og ættjörðina, að hjálpa öðrum og að halda skátalögin.
Skátarnir lofa því ekki að þeim muni aldrei mistakast að standa við heitt sitt. Þeir einfaldlega lofa því að gera sitt besta til að standa við orð sín.
Siðferðileg gildi skátahreyfingarinnar eru oft flokkuð á eftirfarandi hátt:
- „Skyldan við guð“ – tengsl einstaklingsins við leitina að lífsgildum sem eru ofar honum sjálfum.
- „Skyldan við aðra“ – tengsl einstaklingsins við samfélagið og ábyrgð hans innan þess.
- „Skyldan við sjálfan sig“ – ábyrgð einstaklingsins á að þroska hæfileika sína eins og mögulegt er.
Orðalag í skátaheitinu er að sjálfsögðu svolítið barn síns tíma og ber ekki að taka of bókstaflega. Skátahreyfingin er til dæmis ekki bundin tilteknum trúarbrögðum, löndum eða landsvæðum, ríkjum eða menningarheimum. Hún er alþjóðleg uppeldis- og friðarhreyfing sem leggur áherslu á mótun sjálfstæðra og heilsteyptra einstaklinga, sem taka á virkan hátt og af fullri ábyrgð þátt í uppbyggingu samfélagsins, hvort sem það er innan fjölskyldunnar, í skólanum, á vinnustaðnum, í viðkomandi þjóðfélagi eða í alþjóðlegu samfélagi allra manna.
„Guð“ í skátaheitinu vísar til andlegs þroska skátans sem hugsandi heilsteypts einstaklings sem byggir líf sitt á lífsgildum eins og kærleika, ígrundun, siðgæði, umburðarlyndi og samhjálp. Að sjálfsögðu leggur svo hver og einn sína merkingu í guðs-hugtakið í takti við þau trúarbrögð sem hann eða hún aðhyllist, hvort sem það er kristni, íslam, búddismi, ásatrú eða annað. Varast ætti, í því fjölmenningarsamfélagi sem Ísland er orðið, að tengja skátastarf um of við tiltekin trúarbrögð eða beina hefðbundna trúariðkun.
„Ættjörðin“ í skátaheitinu vísar til þess samfélags sem við búum í, þeirrar menningar sem við þekkjum best og að sjálfsögðu þess lands sem við byggjum. Í augum ungs skáta vísar „ættjörðin“ til nánasta umhverfis og nærsamfélags í faðmi fjölskyldu og skóla. Eftir því sem einstaklingurinn þroskast, víkkar þessi sýn og nær til Íslands alls, íslenskrar menningar, tungumáls og íslenskrar náttúru. Fyrir hinn fullorðna og þroskaða skáta vísar „ættjörðin“ til náttúrunnar allrar, fjölbreyttra menningarheilda og alls mannkyns. Þó að skátar hér á landi leggi áherslu á íslenskan menningararf, íslenska fánann og íslenska þjóð, ber að varast að tengja skátastarf um of við þjóðerni og alls ekki við þjóðernisstefnu eða þjóðernisskrum.
„Að hjálpa öðrum“ í skátaheitinu vísar til þeirra mikilvægu tengsla sem eru milli einstaklings og samfélags. Það vísar til samfélagslegrar ábyrgðar hvers og eins. Þroski mannsins er algerlega háður gagnvirkum samskiptum einstaklingsins við aðrar manneskjur, við samfélag manna. Þess vegna er beinlínis rangt og varasamt að tengja „að hjálpa öðrum“ einungis við það að hjálpa þeim sem eiga bágt – við góðmennsku eða manngæsku. Að sjálfsögðu ber að hjálpa þeim sem þjást, eru fátækir eða í jaðarhópum, eru einangraðir eða utanveltu. En við gerum það ekki einungis af því að við erum svo góð og fórnfús – heldur á grundvelli manngildishugsjónar okkar og hugmynda um réttlæti, jafnræði, jafnrétti og sjálfbærni til handa öllum samfélögum og öllum mönnum, konum og körlum. Við hjálpum öðrum til þess að allir fái sem jöfnust tækifæri í lífinu og þannig eflum við samfélagið í heild.
Að lokum áréttar skátaheitið viljann til „að halda skátalögin“. Það snýst ekki um að kunna lögin utan að eða að virða þau sem utanaðkomandi reglur – eins og umferðarreglur. Loforðið um að gera sitt besta til að halda skátalögin er eitthvað meira. Það snýst um að lifa skátalögin – að gera þau að hluta sannfæringar okkar – hluta af okkur sjálfum. Þá verða skátalögin eðlilegur hluti af persónuleika okkar, viðmóti og hegðun. Þetta þroskaferli snýst um breytingu frá blindri hlýðni við lærðar reglur til siðferðilegs sjálfstæðis. Um það snúast skátalögin. Að lifa skátalögin er ekki bara loforð sem við gefum fyrir unglingsárin eða á meðan við erum í formlegu skátastarfi. Loforðið gildir allt lífið, í skátastarfi og utan þess. Þetta er það sem margir eldri skátar eiga við þegar þeir segja „eitt sinn skáti, ávallt skáti“.
Skátalögin
Siðferðileg gildi skátahreyfingarinnar eru sett fram á skipulegan hátt í skátalögunum. Skátalögin eru þó miklu meira en bara skipulagskerfi hugmynda. Þau eru í raun hegðunarmynstur sem ungt fólk getur valið að fylgja og nota til að móta stefnu sína í lífinu. Til þess að vera sjálfum sér samkvæmur þarf hver einstaklingur að hugsa og haga sér í samræmi við eigin gildi.
Skátalögin eru ekki tilskipun heldur tilboð um viðhorf og hegðun. Tilboðið er heillandi, sett fram á einfaldan og auðskilinn hátt á einföldu og aðgengilegu máli. Þegar skátarnir eru tilbúnir til að vinna skátaheitið lofa þeir sjálfum sér að reyna að framfylgja þeim gildum sem koma fram í skátalögunum og gera þau þannig að persónulegum lífsgildum sínum.
Skátalögin
- Skáti er hjálpsamur
- Skáti er glaðvær
- Skáti er traustur
- Skáti er náttúruvinur
- Skáti er tillitssamur
- Skáti er heiðarlegur
- Skáti er samvinnufús
- Skáti er nýtinn
- Skáti er réttsýnn
- Skáti er sjálfstæður
Frá 10-11 ára aldri, þegar börn fara að hugsa rökrétt, þróa þau smám saman með sér siðferðilegt sjálfstæði. Þau verða fær um að dæma fólk eftir gjörðum þess og benda á sérstaka þætti í fari þess. Þau skynja galla og veikleika og trúa ekki lengur í blindni á „yfirvaldið“. Þess vegna fara þau sjálf að dæma um eigin athafnir og annarra.
Börn viðurkenna siðferðilegar reglur sem leið til að deila réttindum og skyldum innan þess hóps sem þau tilheyra. Allt fram til 12 ára aldurs samþykkja þau reglur sem nokkurs konar samning milli einstaklinga. Eftir það öðlast þau smám saman skilning á að reglur eru ekki ósnertanlegar heldur er hægt að breyta þeim með samkomulagi. Smám saman, sérstaklega á seinna stigi gelgjuskeiðsins í kring um 15 ára aldurinn, fer unglingurinn svo að móta með sér altæk gildi eins og réttlæti, samvinnu, jafnrétti og virðingu.
Aðferðafræðileg grunngildi skátahreyfingarinnar
Skátaaðferðin – Stigvaxandi sjálfsmenntun
Skátastarf byggir á hugmyndinni um sjálfsmenntun og sjálfsuppeldi. Hver skáti er einstakur og ber ábyrgð á að taka út alhliða þroska og nýta möguleika sína.
Í sjálfsmenntun felst hugmyndin um „menntun innan frá“, andstætt „kennslu utan frá“. Skátinn er lykilþátttakandi í menntuninni, hann sjálfur er „kennarinn“. Skátaaðferðin er til þess ætluð að leiða og hvetja skátann til að verða öflugur en jafnframt heilsteyptur einstaklingur. Sjálfsmenntunin er líka stigvaxandi í takti við aldur og þroska.
Skátaaðferðinni er ætlað að:
- Hjálpa hverjum skáta að nota og þroska eigin hæfni, áhugamál og lífsreynslu.
- Styðja skátann í að öðlast nýja hæfni og þróa ný áhugamál.
- Hjálpa skátanum að finna uppbyggjandi leiðir til að mæta eigin þörfum.
- Opna dyrnar að sjálfstæðu lífi, á þeim hraða sem hentar hverjum og einum.
Kerfi innbyrðis tengdra lykilþátta
Skátaaðferðin er kerfi innbyrðis tengdra lykilþátta. Þess vegna er heitið „Skátaaðferðin“ í eintölu en ekki fleirtölu. Hvern þessara þátta væri hægt að líta á sem eina sjálfstæða aðferð, en við getum aðeins talað um Skátaaðferðina þegar allir þættirnir eru saman komnir. Hver einstakur lykilþáttur hefur sjálfstætt uppeldis- og menntunargildi og hver þáttur fyrir sig eykur áhrif hinna. Allir lykilþættirnir þurfa að vinna saman til þess að kerfið virki.
Skátaaðferðin hentar best í starfi með börnum og ungu fólki á aldrinum 10-22 ára.
Beita verður Skátaaðferðinni í samræmi við þroska skátanna. Drekaskátar, 7-9 ára, eru til dæmis of ungir til þess að tileinka sér algild lífsgildi eins og jafnrétti ogumburðarlyndi eða til þess að taka að sér leiðtogahlutverk í litlum hópi. Þess vegna er flokkakerfiðekki notað í starfi drekaskáta og með þeim er einungis lögð áhersla á fyrstu fjórar greinar skátalaganna.
Skátaaðferðin hentar best í starfi með börnum og ungu fólki á aldrinum 10-22 ára. Hlutverk fullorðnu foringjanna er að sjá til þess að starf skátanna sé í takti við aldur þeirra og þroska – til þess að þeir læri af reynslunni og verði smám saman sjálfstæðir, virkir og ábyrgir. Við eðlilegar aðstæður þar sem öryggis og frjálsræðis er gætt velja skátarnir sjálfir mátulega ögrandi verkefni til að takast á við. Í því er uppeldis- og menntunargildi skátahreyfingarinnar fólgið.
Þó að unnið sé eftir öllum lykilþáttum Skátaaðferðarinnar í skátastarfinu eru þeir ekki allir sýnilegir í einu. Sumir eru aðeins virkir baksviðs á tilteknum tímapunkti. Með tímanum, til dæmis eftir nokkra fundi, ferðir og útilegur hafa þó allir þættirnir verið virkjaðir.