SKÁTAÞING 2015 verður haldið 20.  – 22. mars á Selfossi í Fjölbrautaskóla Suðurlands.  Starfsmenn Skátamiðstöðvar hafa staðið í ströngu undanfarið við að gera allt klárt og hafa öll þinggögn verið sett á vef og fulltrúar skátafélaganna fengið sendar upplýsingar.  Gestgjafar þingsins í ár eru Fossbúar og sjá þeir meðal annars um undirbúning gleðisamkomunnar  á laugardagskvöld.

Félagsforingjar fá skipunarbréf

Skátaþing er opið öllum skátum og má gera ráð fyrir að hátt í 200 skátar heimsæki þingið og taki þátt í dagskrá að hluta eða allan tímann.  Allir starfandi skátar hafa rétt til að sitja Skátaþing með málfrelsi og tillögurétti.  Dagskránni yfir helgina, einkum á laugardag er stillt þannig upp að flestir þátttakendur geti verið virkir í umræðu og flest sjónarmið komi fram.

Kosningar á föstudagskvöld

Þingið verður sett á föstudagskvöld kl. 18.30 og þá um kvöldið eru kosningar til stjórnar Bandalags íslenskra skáta (BÍS).  Samkvæmt lögum er kosið á þessu þingi í fjórar stjórnarstöður. Bergþóra Sveinsdóttir býður sig fram til formanns ungmennaráðs, Ólafur Proppé er í framboði til formanns fræðsluráðs; Jón Þór Gunnarsson er í framboði til formanns alþjóðaráðs.  Þau eru öll sjálfkjörin. Framboðsfrestur í embætti formanns dagskrárráðs var lengdur þar sem sitjandi formaður, Unnur Flygenring,  dró framboð sitt til baka eftir að framboðsfrestur var runninn út. Þrír frambjóðendur eru í  þá stöðu en það eru Benjamín Axel Árnason, Una Guðlaug Sveinsdóttir og Þórhallur Helgason.

Einbeittir eðalskátar

Laglegur - Jón Þór Gunnarsson er formaður laganefndar og einnig formaður alþjóðaráðs.

Ný lög fyrir Bandalag íslenskra skáta

Laganefnd sem unnið hefur frá síðasta skátaþingi að nýjum lögum leggur fyrir heilsteypta lagabreytingatillögu þessu þingi.  Auk hennar liggja fyrir þinginu tvær breytingartillögur um nýtt skátaheit.

Þar sem lagabreytingarnar eru umfangsmiklar er ráðgert að á föstudagskvöld verði umræðan látin einskorðast við þrjú stór mál. Í fyrsta lagi eru það ákvæði um félagsaðild að BÍS, í öðru lagi að tvískipta lögum í grunnlög sem krefjast aukins meirihluti til breytinga og almenn lög sem auðveldara er að breyra og halda í takt við tímans dægurflug, í þriðja og síðasta lagi er stillt fram tveimur möguleikum um hvernig verður kosið til stjórnar BÍS. Hvort stjórn verði í framtíðinni kosin í heild á einu þingi eða verði endurnýjuð að hluta á hverju þingi eins og nú er.

Málefnavinna og umræðuhópar á laugardag

Stærstu málin á þinginu eru stefnumótun og lagabreytingar og verða þau tekin fyrir á laugardag með sérstökum kynningum í upphafi dags.  Framsaga um stefnumótun skáta er fyrst á dagskrá og í framhaldi af því verða tillögur um ný lög tekin fyrir að nýju.

Umræðugleði fær að njóta sín á Skátaþingi

Umræður um margvísleg önnur málefni fylla svo myndina af því sem helst brennur á skátum í daglegu skátastarfi. Í umræðuhópum á laugardag verða sérstakir umræðurhópar um eftirtalin málefni:

 • Skátaheit
 • Ný lög BÍS
 • Landsmót skáta
 • Stefnumótun
 • World Scout Moot 2017
 • Rekkaskátadagskrá
 • Róverdagskrá
 • Þjónusta BÍS
 • Leiðtogaþjálfun
 • Skátamál.is
 • Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni
 • Félagsráð

Þingfulltrúar á síðasta ári.

Og svo er atkvæðagreiðsla um framtíðina á sunnudag

Á sunnudag er svo ráðgert að bera upp tillögur ný lög og þar hafa atkvæðisrétt fjórir fulltrúar frá hverju skátafélagi.  Einnig eru á dagskrá starfsáætlun, fjárhagsáætlun og stefnumótunin..

Stefnt er að því að þingslit verði kl. 14.30 á sunnudag.

 

Nánari upplýsingar

 

Tengdar fréttir

Tekið af www.skatamal.is