Fimmtudagskvöldið 19. janúar var líf og fjör í Skátamiðstöðinni þegar alþjóðaráð kynnti fyrir fullum sal tækifærin sem felast í alþjóðlegu skátastarfi. Formaður ráðsins, Jón Þór sagði hugljúfa sögu, hvernig hann fylltist skátaandanum við þátttöku á erlendu skátamóti sem dróttskáti og eftir það var ekki aftur snúið. Eftir tugi viðburða, skátamóta og ferða hefur Jón enga eftirsjá nema að hafa einfaldlega ekki náð að taka þátt í fleiri alþjóðlegum viðburðum.

 

Liljar kynnti möguleika á alþjóðastarfi í heimabyggð, meðal þess sem hægt er að gera:

  • Nýta sér verkefni á dagskrávefnum sem snúa að alþjóðastarfi
  • Bjóða erlendum hóp í heimsókn í skátafélagið
  • Framkvæma ungmennaskipti við erlendan hóp og taka á móti þeim á Íslandi
  • Kynnast frábærum skátum sem koma á Landsmót og halda sambandi eftir mót
  • Taka þátt í JOTA/JOTI alþjóðlegum viðburði sem fer fram á Internetinu í október

Vakin var athygli á þeim hafsjó komandi skátamóta sem í boði eru næstu ár, en fátt er því til fyrirstöðu fyrir einstaklinga, skátahópa eða skátafélög sem vilja skella sér á erlent mót! Í Evrópu eru til dæmis um tuttugu stór alþjóðleg mót næsta sumar og hægt er að fá nánari upplýsingar um þau öll hér.
Þórey talaði um sína þátttöku í ungmennaskiptum á vegum Erasmus+, bæði heima og erlendis.

Þykir henni þetta frábært tækifæri til að kynnast skátum og öðrum sjálfboðaliðum og læra á sama tíma nýja spennandi hluti þar sem verkefnin snúast oftast um ákveðið málefni sem þátttakendurnir hafa sameiginlegan áhuga á.

Einnig er umsóknarferlið gefandi og kom það henni á óvart hversu auðvelt það væri að nálgast styrk í gegnum Erasmus+ kerfið en er það einn helsti styrktaraðili ungmennaskipta í skátastarfi. Nánari upplýsingar um hvernig hægt er að sækja um styrki er hægt að finna á www.euf.is

 

 

 

Alþjóðaráð er alltaf reiðubúið að aðstoða þá sem langar að taka þátt í alþjóðlegu skátastarfi, hægt er að hafa samband við ráðið gegnum tölvupóst á althjodarad@skatar.is og ganga í facebookhópinn Tækifæri í Alþjóðastarfi og spyrjast fyrir um hvað sem er.