polar-bear-upclose1-700x357

„Þú ræður,“ er þema dróttskátahátiðarinnar Á norðurslóð sem haldin verður milli jóla og nýárs á Úlfljótsvatni. Dróttskátar á aldrinum 13 – 15 ára fá hér kærkomið tækifæri til að hittast þegar jólasteikin og fjölskylduboðin eru búin.
Á norðurslóð er eins og góð helgi, nema bara ekki um helgi. Enginn ætti því að fá alvarleg ofdekursfráhvörf og komið er í bæinn daginn fyrir gamlársdag. Boðið er upp á rútuferð frá Reykjavík klukkan 17:00 sunnudaginn 28. desember og aftur í bæinn klukkan 13:00 þriðjudaginn 30. desember.

Smíða dagskrána sjálf
Guðmundur Finnbogason á Úlfljótsvatni segir að þetta sé frábært tækifæri fyrir dróttskáta að eiga afslappaða daga saman þar sem áherslan er á að njóta þess sem Úlfljótsvatn hefur upp á að bjóða yfir vetrarmánuðina.

Dagskrá námskeiðsins er að miklu leiti í höndum þátttakenda sem að smíða hana í samstarfi við starfsfólk Úlfljótsvatns. Viðfangsefnin munu meðal annars hafa beina tengingu við daglegt líf og framtíð íslenskra unglinga, auk þess sem þátttakendur fá tækifæri til að hefja undirbúning á evrópsku ungmennaskiptaverkefni.

Gleði og hugmyndaflug velkomið
Guðmundur segir möguleikana vera óteljandi og aðeins þarf að koma með gleði og hugmyndaflug austur fyrir utan svefnpoka og fatnað fyrir allan tíman. Sérstaklega þarf að koma með föt til útiveru miðað veður og tíma námskeiðsins. Gist er innandyra, nema þátttakendur ákveði annað.

Ekki er æskilegt að koma með mat eða sælgæti og betra er að skilja dýr raftæki eftir heima enda er engin ábyrgð tekin á þeim.

Allt innifalið í verði
Þátttökugjald í Á norðurslóð er 10.900 kr. og innifalið í því er fjölmargt:

Rúta til og frá Reykjavík (brottför klukkan 17:00 þann 28. desember frá Reykjavík frá Hraunbæ 123 og komið til baka í bæinn klukkan 13:00 þann 30. desember)
Allur matur frá kvöldmat þann 28. til og með morgunmaat þann 30. desember.
Öll dagskrá og dagskrárefni ásamt aðstöðu og leiðbeinendum allan tímann.
Gisting að sjálfsögðu.
Opið er fyrir skráningu á viðburðaskráningarvefnum.

Tekið af www.skatamal.is