„Það er mikilvægt að við náum til fólks með kynningu á okkar flotta starfi,“ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson formaður upplýsingaráðs, en hann vill að skátarnir verði sýnilegir næstu vikurnar meðan starfið er að fara í gang. Hann hvetur skátafélögin til að fylgja sínum kynningarmálum vel eftir og nýta vel það sem upplýsingaráð og Skátamiðstöðin leggja af mörkum. „Það verður gaman að fylgja kynningarblaði, plaggötum og myndböndum úr hlaði. Ég vona að þau skapi umræðu og nýtist skátafélögunum vel í sínum kynningum“, segir Gunnlaugur.
Breyttir tímar kalla á nýjar leiðir í kynningastarfi, segir Gunnlaugur Bragi formaður upplýsingaráðs skáta
Áhersla verður lögð á samfélagsmiðlana og vísað verður á vefinnskatarnir.is sem opnaður var fyrir ári síðan og er enn nokkuð frískur. Guðmundur Pálsson vefhönnuður leggur nótt við nýtan dag að yfirfara alla tengla og uppfæra texta.
Nýr kynningarbæklingur er í prentun sem og plaggat með hvatningunni „Komdu í skátana!“ Skátafélögin fá bæklinga og plaköt til dreifingar, enda mikilvægt að það sé gert í samræmi við innritun félaganna og þeirra áherslur. Birgir Ómarsson auglýsingahönnuður setur sálina í útlitið.
Myndbönd að verða tilbúin
Þessa dagana er verið að útbúa vídeó og verður þeim deilt á vefinn mjög fljótlega. Efnið var tekið upp á Landsmótinu í sumar og er að meginuppistöðu viðtöl við skátana, sem segja frá sínu starfi og hvers vegna þau njóta þess. Bjarney Lúðvíksdóttir tók vídeóin og vann þau, en hún hefur meðal annars gert skemmtileg myndskeið fyrir Græna skáta. Kosturinn við myndböndin er að skátafélögin geta deilt þeim á sínar Facebook og aðrar samfélagssíður og vefi, en mikilvægt er að virkja sem flesta félaga til að miðla upplýsingum áfram, enda er kynningarfé af skornum skammti.
Gleðin veidd í linsuna
Á Landsmótinu var tækifærið einnig notað til að ná góðum ljósmyndum af skátunum. Það var skátapabbinn og atvinnuljósmyndarinn Sigurður Ól. Sig sem tók myndirnar og að loknum mörgum tökunum sýndi hann krökkunum árangurinn. Óhætt að segja að skátarnir hafi verið hrifnir að því að vera í mynd.
Í kynningarefni er lögð áhersla á að sýna starfið með raunsönnum hætti og á liðnum vetri voru teknar myndir á skátafundum. Þær ásamt myndunum frá Landsmótinu verða notaðar í allt kynningarefni. Þær fara á vefinn skatarnir.is, sem verður þungamiðja kynningarátaksins, en einnig verður þeim miðlað á Facebook og notað í prentefni.
Skátablað fylgir Fréttatímanum í næstu viku
Með Fréttatímanum í næstu viku verður fylgiblað um skátana. Markmiðið með útgáfu þess skátablaðs er einkum að ná til foreldra og barnanna með upplýsingar um hvers vegna skátastarf er góður kostur. Jón Halldór Jónasson heldur um ritstjórnartaumana. Fylgiblaðið er fjármagnað með auglýsingasölu.
Samtakamátturinn mikilvægur
Kostnaði við kynningarmálin er mjög stillt í hóf og hafa hagkvæmustu leiðirnar verið valdar. Með áherslu á samfélagsmiðla og vefi er aðgengi allra að upplýsingum gott og hægt að nýta samtakamáttinn í að láta vita af skátastarfinu, en flest skátafélög eru með Facebook síður og reynslan sýnir að skátar deila og áframsenda gjarnan kynningu á sínu starfi.