Mjög umfangsmiklar breytingar á lögum Bandalags íslenskra skáta (BÍS) verða lagðar til á næsta skátaþingi. Undirbúningur hefur staðið lengi og hafa margir skátar tekið þátt í þeirri vinnu.
Á félagsforingjafundi sem haldinn verður á Úlfljótsvatni næstkomandi laugardag, 7. febrúar, verða tillögur laganefndar kynntar ítarlega og á næstu vikum verða haldnir opnir kynningarfundir. Neðst í þessari frétt eru öll gögn aðgengileg.
Samfélag, siðferði og aðferð
Grunngildi skátahreyfingarinnar fá mikið vægi í tillögunum og er þeim skipt í samfélagsleg, siðferðileg og aðferðafræðileg gildi. Samfélagslegu gildintengjast hlutverki skátahreyfingarinnar sem alþjóðlegri uppeldis- og friðarhreyfingu sem stuðlar að menntun ungs fólks með sjálfsnámi og er öllum opin. Undir siðferðilegu gildin falla skátaheit og skátalög. Þriðji þátturinn lítur að aðferðinni eða þeim gildum sem felast í skátaaðferðinni, sem byggir á virkni þátttakenda með stigvaxandi sjálfsnámi í takt við aldur og þroska þeirra undir leiðsögn fullorðinna. Til skátaaðferðarinnar heyra auk siðferðilegu gildanna nokkrir lykilþættir svo sem hjálpsemi, samfélagsþátttaka, flokkakerfið, táknræn umgjörð, útilíf, umhverfisvernd, leikir og reynslunám.
Breytingar í takt við þróun starfsins
Tillagan að nýjum lögunum ramma inn þær breytingar sem skátahreyfingin hefur verið að ganga í gegnum. Íslenskir skátar hafa gert áherslubreytingar á dagskrá sinni. Þá hafa einnig orðið breytingar á alþjóðavettvangi og horfði laganefnd til þess að gætt væri samræmis við alþjóðasamtökin. Þar er vísað til „Constitution“ WOSM og WAGGGS (World Organization of the Scout Movement og World Association of Girl Guides and Girl Scouts). Nánar má sjá um þau mál á vefsíðum alþjóðasamtakanna og einnig var á þriðjudag frétt um þetta efni hér á Skátamálum: Skoða frétt: Skátafélögin og framtíðarsýn skátahreyfingarinnar.
Fjölbreytilegri félagsaðild
Með lagabreytingunum er ólíkum félagshópum auðvelduð aðild að landssamtökunum, en boðið er upp á ferns konar aðild:
- Skátafélög með starf fyrir – og félaga á aldrinum 7-22 ára.
- Skátafélög sem stuðla að skátastarfi, með félaga sem flestir eru eldri en 23ja ára.
- Félög skáta sem vilja halda tengslum við BÍS með félaga sem flestir eru eldri en 23ja ára.
- Skátar með beina aðild að BÍS.
Réttindi og skyldur þessara hópa eru mismunandi hvað varðar þjónustu BÍS, þátttökurétt í viðburðum, atkvæðarétt á Skátaþingi og félagsgjöld til landssamtakanna.
Gott og faglegt starf
Laganefndin sem skipuð var eftir skátaþing í fyrra hefur unnið gott starf og leggur fram ítarlegar skýringar með tillögum sínum. Jón Þór Gunnarsson, formaður nefndarinnar er ánægður með samstarfið innan hennar. Þar lögðu margir sitt af mörkum og fulltrúum allra skátafélaga var boðin þátttaka. „Ég tel að nefndin hafi nálgast málið með vandvirkum hætti og starfað faglega. Það er von mín að á félagsforingjafundinum komi fram þær athugasemdir sem skátafélögin hafa við tillögur nefndarinnar.“ Félagsforingjar fengu send gögn nú um helgina til að umræðan um næstu helgi verði markmvissari. Þessi gögn eru aðgengileg öllum hér neðar á síðunni.
Gagnapakkinn frá laganefndinni
Hér fyrir neðan eru gögn sem laganefndin hefur skilað af sér og verða kynnt á félagsforingjafundi laugardaginn 7. febrúar:
- Tillaga laganefndar 2014-2015 – OPNA SKJAL
Skjalið inniheldur útgáfu 2 af tillögum nefndarinnar. Í stóru málunum gerir nefndin ráð fyrir og mælir með að breyting á aðild að BÍS verði samþykkt, samþykkt verði ný grunnlög BÍS en breytingar á stjórn og ráðum BÍS verði ekki samþykktar og í stað þess gerði minniháttar breytingar á stjórnskipan. - „Stóru málin“ – OPNA SKJAL
Skjalið gerir grein fyrir hverju og einu „stóru máli“ og áhrif þeirra breytinga á lög BÍS. - Skýringar með tillögum laganefndar 2014-2015 – OPNA SKJAL
Skjalið inniheldur samanburð á tillögum laganefndar við núverandi lög auk skýringa við hverja breytingu.