Adrenalíngarðurinn, bogfimi og fræðsla um flokkakerfið var meðal þess sem var á dagskrá hjá foringjahópi skátafélagsins Skjöldunga um síðustu helgi. Guðmundur Pétursson félagsforingi var ánægður með stemninguna í hópnum en þrír úr stjórn fóru með foringjum og foringjaefnum í þessa hvata- og fræðsluferð.
Byrjað var í Adrenalíngarðinum á föstudag og síðan farið í steik og bogfimi til Guðmundar Finnbogasonar á Úlfljótsvatni þar til laust eftir miðnætti á föstudagskvöld.
Á laugardag fengu Skjöldungar þau Ingu Mosverja og Gísla Vífil til að vera með fræðslu um flokkakerfið og hvernig best er að halda utan um það og láta einstaklingana njóta sín í flokkunum.
„Krakkarnir njóta sín oft best í minni hópum og vinatengslin verða miklu sterkari,“ segir Guðmundur. „Enda flokkakerfið ekki ein af leiðunum til að stunda skátastarf heldur EINA leiðin eins og Gísli var að vitna í Baden Powell hér rétt áðan. Við erum að endurvekja flokkakerfið, en það lagðist af fyrir næstum tíu árum og eingöngu keyrt á vikulegum sveitarfundum. Ég hef stefnt að því að endurvekja flokkana frá því ég tók við sem félagsforingi fyrir fjórum árum, og nú sýnist mér að við séum tilbúin í það verkefni.“ segir hann. „Umræðan um helgina hefur verið mjög góð.“
Atli og Rakel í bogfimi á Úlfljótsvatni.
Frábært hópefli – og gott að vera án krakkaskarans
„Mér fannst foringjaferðin vera frábært hópefli og góð leið til þess að hrista hópinn saman, þrátt fyrir það að við þekkjumst auðvitað vel og höfum lengi verið saman í Skjöldungum. Það er alltaf gott að ná að gera eitthvað með þessum hóp án krakkaskarans,“ segir Orri Úlfarsson einn foringjanna í Skjöldungum og hann er ánægður með áhersluna á skátaflokkana. „Kynningin á flokkastarfinu var mjög fróðleg og ég efast ekki um það að ég muni geta nýtt mér það sem um var rætt bæði í drekaskátastarfinu og auðvitað í miklum mæli í fálkaskátastarfinu þar sem ég vona að við getum tekið kerfið upp smám saman og að lokum náð flokkastarfi í fullt fjör.
Í vetur verður starf í tveimur drekaskátasveitum, einni fálkasveit, dróttskátasveit og síðan einni sameiginlegri rekka- og róversveit. „Við erum ekki stórt félag, innan við hundrað manns. Við leggjum áherslu á gæðin og það mun skila sér í auknum fjölda,“ segir Guðmundur sem horfir bjartsýnn á starfið framundan.
Foringjatjill
Nánar um starf Skjöldunga er að finna á heimasíðu þeirra skjoldungar.is
– JHJ / Ljósmyndir frá Magnúsi Karlssyni