Elín Esther Magnúsdóttir hefur verið ráðin dagskrárstjóri Útilífsmiðstöðvarinnar á Úlfljótsvatni og er hún þessa dagana að setja sig inn í nýja starfið. Elín er að vísu flestum hnútum kunnug á Úlfljótsvatni en hún starfaði þrjú sumur í Sumarbúðum skáta og hefur komið að ýmsum viðburðum á Úlfljótsvatni. Stjórn Skátasambandins Býður Elínu Esther velkominn til starfa.
Elín Esther er ánægð með nýja starfið
„Ég á margar góðar minningar frá Úlfljótsvatni og ber sterkar taugar til staðarins. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með uppbyggingunni þar í gegnum árin en kannski löngu orðið tímabært að stökkva af hliðarlínunni og taka virkan þátt í henni,“ segir Elín Esther um ástæðuna fyrir því hún sótti um starfið.
Vön að vinna mikið og undir álagi
„Það heillar mig hvað starfið er fjölbreytt og ekki síður að það snýst að svo miklu leiti um áhugamál mín – hvort sem það er að skipuleggja ævintýrilegar upplifanir, eins og ég hef gert í mörg ár í skáta- og björgunarsveitarstarfi, útivistina eða að nota starfskunnáttu mína til að kynna Úlfljótsvatn fyrir heiminum,“ segir Elín. „Ég er vön því úr fjölmiðlunum að vinna mikið og undir álagi, en það verður kærkomin viðbót við þá formúlu að eyða hluta vinnutímans undir beru lofti á einum af mínum uppáhaldsstöðum. Mér finnst ég mjög heppin að hafa fengið þetta tækifæri og ekki skemma vinnufélagarnir fyrir“.
Dagskrárstjóri sér um stefnumótun og þróun dagskrárliða, stýrir dagskrá fyrir skólabúðir og sumarbúðir auk þess að taka á móti hópum, til dæmis í hópeflis- og hvataferðir. Þá kemur dagskrárstjóri meðal annars að markaðssetningu og kynningu á staðnum í samstarfi við framkvæmdastjóra, auk þess sem það falla alltaf til einhver verkefni á lifandi stað eins og Úlfljótsvatni.
Spennandi tækifæri
„Ég mun jöfnum höndum hafa umsjón með þeirri dagskrá sem boðið er upp á og vinna að aukinni markaðssetningu á útilífsmiðstöðinni, í samvinnu við framkvæmdastjóra,“ segir Elín Esther. „Mér líður eiginlega eins og ég sé að koma aftur heim eftir langa fjarveru, þó ég hafi nú yfirleitt verið með annan fótinn á Úlfljótsvatni í gegnum tíðina. Það hefur mikið gerst á staðnum á síðustu árum og það er mjög spennandi að fá tækifæri til að taka þátt í að þróa staðinn áfram, og það starf sem þar fer fram. Ég á von á að starfið verði krefjandi og fjölbreytt, en umfram allt að það verði stórkostlega skemmtilegt að rækta Undralandið, og ævintýrið, með því góða starfsfólki og sjálfboðaliðum sem þar láta til sín taka.“
Vill ná til nýrra hópa
„Á Úlfljótsvatni er rekið margvíslegt starf en það má segja að rauði þráðurinn sé ævintýri með innhaldi. Við viljum að þeir sem heimsækja Úlfljótsvatn fari þaðan með nýja reynslu í pokahorninu, eitthvað skemmtilegt sem þeir geta verið stoltir af,“ segir Elín Esther, en hvað um hennar eigin áherslur. „Eitt af því sem mig langar að leggja púður í er að útvíkka gestahópinn, ná til nýrra hópa og einstaklinga, svo fleiri fái að njóta þessarar upplifunar sem við skátar þekkjum svo vel. Svo snúast mínar frístundir að miklu leiti um útivist og ferðalög, og það væri mjög gaman að geta notað þá reynslu í einhverja nýsköpun fyrir staðinn“.
Samkomustaður og skátaháskóli
Á dagskrárstjórinn sér draumsýn um Úlfljótsvatn í framtíðinni? „Fyrst og fremst að Úlfljótsvatn verði áfram sá staður sem ungir skátar hlakka til að koma á, að þar eigi skátar áfram sinn samkomustað og skátaháskóla og að þar verði áfram til okkar kærustu minningar úr skátastarfi,“ segir Elín. „En ég vil líka að þar sé rekin öflug útilífsmiðstöð sem almenningur sækir langar leiðir í og fær aldrei nóg af – að Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni skapi sér nafn sem miðpunktur alls konar frístundaiðkunar og uppákoma“.
Hver eru sóknarfærin? „Það væri fullklisjukennt að fara að þylja upp tölur um ferðamannafjölda, en þó ekki hægt að líta framhjá því að margir ferðamenn koma til Íslands gagngert til að njóta náttúru, útivistar og ævintýra. Og hvar er betra að gera það en á Úlfljótsvatni? Við erum miðsvæðis á einu mest sótta ferðamannasvæði landsins og það væri skrítið að nýta ekki þá staðreynd,“ segir hún. „Með uppbyggingu og auknum sveigjanleika í húsakosti opnast líka tækifæri fyrir margs konar nýjungar í þjónustu og útleigu til hérlendra hópa og einstaklinga“.
Á næstu mánuðum verður unnið að því að því að auka vitund almennings, bæði heima og erlendis, um það hvað Úlfljótsvatn hefur upp á að bjóða. Elín segir að einnig sé veirð að skoða nýja möguleika í viðburða- og námskeiðshaldi og dagskrárframboði almennt. „Það eru því óteljandi möguleikar í stöðunni og vitaskuld er öllum frjálst að leggja hugmyndir í púkkið. Betur sjá augu en auga, eins og þar segir, og mín reynsla er sú að skátar fá með afbrigðum góðar og skemmtilegar hugmyndir,“ segir hún og hvetur alla til að láta í sér heyra um hugmyndir.
Fjölmiðlar, klarínett og meirapróf
Elín hefur hátt í tuttugu ára reynslu af vinnu við fjölmiðla, hönnun, útgáfu og auglýsingagerð. Síðustu átta ár vann hún hjá útgáfufélagi Morgunblaðsins og mbl.is. Elín hefur mikinn áhuga á hvers kyns útivist og ferðalögum og árið 2011 kom út útivistarhandbókin „Góða ferð“, sem hún samdi ásamt eiginkonu sinni Helen Garðarsdóttur.
Elín er stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurlands og það ætti ekki að koma á óvart að þar tók hún fjölmiðlalínu félagsfræðibrautar. „Já og ég er með meirapróf og lærði einu sinni á klarinett. Talandi um nám þá má það koma fram að ég sótti Gilwell og þar er ég Spæta,“ segir hún glaðbeitt og slær um sig með skátalingói.
Allur skátapakkinn frá Ögrun til Eurojam
Elín hefur verið skáti frá 1988, þegar hún gekk í Fossbúa á Selfossi. Hún starfaði síðar einnig með Garðbúum, leiðbeindi á námskeiðum á vegum BÍS, stýrði dróttskátadagskránni DS. Ögrun fyrir SSR, gegndi starfi fræðslustjóra BÍS í tvö ár og var fararstjóri á Eurojam í Bretlandi 2005 svo eitthvað sé nefnt. Undanfarin ár hefur frítími hennar að mestu farið í björgunarsveitarstörf en Elín starfaði með Björgunarsveitinni Ársæli þar sem hún var meðal annars nýliðaforingi og síðar til skamms tíma með Björgunarfélagi Árborgar.
Dagskrárstjóraselfí
Guðrún Ása fer í flugumferðina
Guðrún Ása Kristleifsdóttir sem var dagskrárstjóri á Úlfljótsvatni er á leið í nám sem flugumferðarstjóri. Skátarnir þakka henni fyrir vel unnin störf og óska henni heilla á nýjum vettvangi. Guðrún Ása er þó engan veginn alfarin og mun leggja starfinu lið.
Hefur þú hugmynd eða ábendingu?
Þeir sem vilja koma hugmyndum, ábendingum eða árnaðaróskum til Elínar Estherar ættu ekki að hika við að senda henni tölvupóst eða hringja í síma 694 7614.