Mikill sóknarhugur ríkir hjá stjórnendum Úlfljótsvatns að efla þar ferðaþjónustu og renna með þeim hætti styrkari stoðum undir rekstur staðarins og þjónustu. Auk almennrar uppbyggingar og samvinnu við aðra í ferðaþjónustuaðila á svæðinu verður góð tenging Úlfljótsvatns við skátastarf nýtt til sóknar.
Í ársbyrjun var hrundið af stað markaðsátaki sem miðar að því að fjölga erlendum skátahópum á Úlfljótsvatni. Ákveðið var horfa sérstaklega til bandarískra skáta en þeir eru um 7 milljón talsins. Átakið er styrkt af Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) enda má búast við að svæðið allt njóti góðs af öflugum alþjóðatengingum skáta.
Náðu strax góðum samböndum
Guðmundur Finnbogason framkvæmdastjóri Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni og Elín Esther Magnúsdóttir dagskrárstjóri fóru fyrir hönd Úlfljótsvatns til Bandaríkjanna um mánaðarmótin janúar og febrúar. Þau hittu fulltrúa tíu svæðisskrifstofa skáta á Boston og New York svæðinu ásamt því að skoða Alpine skátamiðstöðina sem er í eigu skáta í New York.
„Ferðin tókst frábærlega. Við funduðum með fjölmörgum aðilum bæði frá Boy scouts of America og Girl scouts USA. Allir tóku okkur frábærlega. Fannst verkefnið og tilboðin okkar hljóma mjög spennandi og voru tilbúnir að kynna okkur til sinna félaga,“ segir Guðmundur um ferð hans og Elínar, Hann segir að allir sem þau hittu hafi verið mjög hrifnir af framtaki þeirra og fyrirhöfn og líklega hafi þau orðið eftirminnilegri því voru á ferð þegar mesti stormur í langan tíma geisaði. „Raunar vissum við ekki alveg við hverju við áttum að búast, hvort að svæðisskrifstofurnar væri rétti staðurinn til að sækja eða hvort að þær væru til í að kynna okkur. Það kom í ljós að við hefðum ekki getað hitt á betri leið til að kynna starfsemi okkar.“
Úlfljótsvatn er á mjög samkeppnishæfu verði
Skrifstofurnar þjóna 10-50 þúsund skátum hver auk sjálfboðaliða. Þær sjá líka um að kynna og halda utan um ýmiskonar dagskrártilboð til skátanna ásamt því að reka sínar eigin skátabúðir og skátamiðstöðvar. „Það kom líka í ljós að við erum að bjóða pakka á mjög samkeppnishæfu verði þegar miðað er við aðrar ferðir sem að hópar eru að fara í bæði innan Bandaríkjanna og til Evrópu,“ segir Guðmundur. Næstu verkefni þeirra er að útbúa sérstaka pakka fyrir þessa hópa og koma þeim í dreifingu. Mögulegt er að fyrstu hóparnir sem næst til með þessu framtaki komi jafnvel í sumar.
Íslenskir skátar velkomnir á skátamót og viðburði
Guðmundur segir að ein aukaafurðin af ferðinni sé áhugi amerískra skáta á að fá íslenska skáta á sín skátamót og viðburði. „Við munum því geta kynnt slíka möguleika fyrir íslenskum skátum í framhaldinu og komið þeim í samband við fólk sem að við höfum nú þegar byrjað að mynda sambönd við,“ segir hann.